Aðalbygging Háskóla Íslands fagnaði 85 ára afmæli á þjóðhátíðardegi Íslendinga þann 17. júní 2025. Hún var fyrsta háskólabyggingin sem reis fyrir happdrættisfé og síðan þá hefur Happdrætti Háskóla Íslands fjármagnað á yfir þriðja tug háskólabygginga.
Happdrættinu til heiðurs var herferðinni „Gætir unnið, tapar aldrei,“ hleypt af stokkunum þar sem landsmenn voru minntir á mikilvægi happdrættisins fyrir uppbyggingu Háskólans í hartnær heila öld.
Úr varð sjónræn frásögn, sjónvarpsauglýsing og loks lifandi viðburður sem byggðu í grunninn á sömu spurningunni: Hvernig hefði Háskóli Íslands orðið án happdrættisins?
Markmið herferðarinnar var að minna landsmenn á hinn raunverulega samfélagslega ávinning með þátttöku í Happdrætti Háskólans og sýna að stuðningur við happdrættið er í grunninn fjárfesting í framtíð íslenskrar háskólamenntunar. Aðalbyggingin var í aðalhlutverki og vildum við koma því til skila að með hverjum miðakaupum tapar enginn því öll stuðla þau að uppbyggingu Háskólans.
Aðalbygging Háskóla Íslands var látin hverfa í umhverfismiðlum til að sýna svart á hvítu að án stuðnings frá happdrættinu hefði hún aldrei risið.
Einnig var framleidd sjónvarpsauglýsing þar sem sett var á svið skólastofa undir berum himni sem táknræn áminning þess að án stuðnings happdrættisins hefði kennsla Háskóla Íslands þess vegna getað farið fram úti á miðju túni í lemjandi rigningu.
Til að færa hugmyndina yfir í raunveruleikann var sett á svið önnur skólastofa undir berum himni í miðbæ Reykjavíkur þar sem gestum var boðið til kennslustundar með Stefáni Pálssyni sagnfræðingi. Þar settist enginn annar en Ólafur Ragnar Grímsson aftur á skólabekk. Viðburðurinn vakti mikla athygli, bæði í fjölmiðlum og meðal gesta.
Herferðin fangaði sterka og samfellda sögu Happdrættis Háskóla Íslands. Jafnframt tókst að endurvekja skilning almennings á því hversu stóru hlutverki happdrættið hefur gegnt í uppbyggingu háskólasamfélagsins alveg síðan Aðalbyggingin reis fyrir 85 árum síðan.
Í upphafi herferðarinnar sást hvergi í Aðalbygginguna á umhverfisskiltum.
Á vefmiðlum reis Aðalbyggingin síðan upp úr jörðinni þar sem hún stendur enn með stolti.
Sjónvarpsauglýsingin var frumsýnd á sjálfan þjóðhátíðardaginn þar sem sett var á svið skólastofa undir berum himni sem fangaði sterka mynd um stöðu Háskólans án happdrættisins.
Boðið var til hátíðlegrar kennslustundar með Stefáni Pálssyni þar sem búið var að stilla upp annarri skólastofu í miðbæ Reykjavíkur. Viðburðurinn var hluti af afmælishátíð Háskóla Íslands og vakti mikla athygli, bæði í fjölmiðlum og meðal gesta.