Árið 2023 voru raftæki og spilliefni um 2,6% af magni í blandaða ruslinu eða 1,9 kg á hvern íbúa höfuðborgarsvæðisins. Mikilvægt er að raftæki og þar með talin unaðstæki rati í réttan farveg, því þessi ónýtu tæki innihalda verðmæt efni sem gætu öðlast nýtt líf.
Í tilefni af Alþjóðlega rafrusldeginum ákváðu unaðstækjarisinn Blush og flokkunarrisinn Sorpa því að sameina krafta sína og blása til átaks í skilun ónothæfra unaðstækja til endurvinnslu.
Heimur unaðstækjanna hefur upp á margt tvírætt að bjóða, bæði í ríðu og riti, ræðu og riti afsakið, og því auðsótt að byggja herferðina upp á textum með glerhörðum skírskotunum í allan þann skemmtilega og spennandi varning sem verslun Blush hefur upp á að bjóða. Setningarnar hreinlega spýttust fram á lyklaborðið og hönnuðirnir voru fljótir að kreista út nautnafullar útfærslur á því sem kom út úr því.
Það er staðreynd að undir fjölmörgum íslenskum rúmum leynast tæki sem hafa lokið hlutverki sínu og fólk veit kannski ekki alveg hvað á að gera við eða jafnvel þorir ekki að fara með í endurvinnslu. Með herferðinni vildum við skerpa á því hvernig hægt er að flokka þessi tæki á réttan hátt og gera fólki kleift að fullnægja hringrásinni á jafn sjálfsagðan hátt og gert er við annan úrgang heimilisins.
Flokkun getur líka verið æsandi. Útlit herferðarinnar hélst í hendur við bleikt útlit viðskiptaveldis Blush og var hannað nýtt myndmerki fyrir herferðina sem hafði skírskotun bæði í merki Blush og hið víðfræga endurvinnslumerki. Einnig var hönnuð glæný endurvinnslutunna í bleikum lit sem ferðaðist um borgina og tók á móti notuðum tækjum almennings.
Það þarf enginn að skammast sín fyrir ruslið sitt!
Það er fín lína milli þess að vera hnittinn og vera klúr. Á þessari línu gerast töfrarnir, á þessari línu vöktum við athygli á bæði unaðstækjum og endurvinnslu svo allir aðilar herferðarinnar gátu sáttir við unað.
Í útvarpinu voru lesnar dánatilkynningar látinna unaðstækja, til að mynda Womanizer Pro G-spot Rabbit. Blóm og kransar afþakkaðir en aðstandendum þakkað fyrir endurvinnslu.
Sérstökum endurvinnslutunnum var komið fyrir í verslun Blush og á endurvinnslustöðvum Sorpu til að taka á móti ónýtum unaðstækjum.
Það er ekki langt síðan það var tabú að eiga unaðstæki. Svo er ekki lengur, en það er tabú að tala um hvað við gerum við þau þegar þau hafa lokið hlutverki sínu. En þau eru rétt eins og öll önnur raftæki. Þau eiga að fara í endurvinnslu því í þeim felast bæði verðmæti og svo er það mun betra fyrir umhverfið að koma þeim aftur inn í hringrásina.